Getur þú ekki sofið? Af hverju færðu þér ekki gullfisk?
Síðari spurningin er ekki alveg jafn fáranleg og hún hljómar í fyrstu, því rannsóknir sem gerðar hafa verið sl. þrjá áratugi benda til þess að það hafi róandi áhrif á mannshugann að fylgjast með fiskum. Þykir það draga úr streitu, svefnleysi og fjölda annarra heilsuvandamála eins og t.d. háum blóðþrýstingi.
Þessir kostir gullfiskanna hafa vakið áhuga lággjaldahótelkeðjunnar Travelodge sem nú hefur komið á fót fyrstu gullfiskaleigu Bretlands. Samkvæmt könnun sem hótelkeðjan lét gera fyrir sig virðast 63% Breta eiga við svefnvandamál að stríða í tengslum við streitu og 58% þeirra sem svöruðu könnuninni voru þeirrar skoðunar að lausnin á því gæti falist í gullfiskaáhorfi.
"Við erum alltaf að leita leiða til að veita viðskiptavinum okkar betri nætursvefn og gullfiskaáhorfið er vinsælt val," sagði Wayne Munnelly, svefnstjóri Travelodge.
Ég held að þetta eigi nú reyndar jafnt við um aðra fiska.
Klínískar rannsóknir og reyndar margir ef ekki allir geð- og sálfræðingar segja að það sé gott fyrir geðheilsu að eiga heimilisdýr. Hvort sem það sé gullfiskur eða hundur!