Vona að það sé einhver hérna sem getur hjálpað mér.
Svo er mál með vexti að sonur minn fékk gullfisk í kúlu í afmælisgjöf fyrir ca. 3 vikum en fiskurinn hafði það ekkert allt of gott undir það síðasta þannig að við keyptum 54l fiskabúr í Dýralífi í síðustu viku. Degi eftir að gullfiskurinn fór í ný heimkynni þá fannst hann í loftdælunni að morgni sem vakti litla kátínu hjá fjölskyldunni.
Við fórum svo í Dýraríkið á sunnudag þ.s. við hittum fínan starfsmann sem taldi að fiskurinn hefði verið orðinn veikur og því hefði það verið of mikið sjokk fyrir hann að fara í búrið. Hann taldi þó ekki að vatnið í búrinu væri mengað og sagði að það væri í góðu lagi að kaupa 2 gullfiska í búrið og síðan þegar bakteríuflóran væri orðin góð þá gætum við jafnvel bætt við 2 stykkjum.
Þegar ég setti fiskana í búrið þá fór ég eftir leiðbeiningunum sem voru á pokanum sem þeir komu í og bætti hægt og rólega við vatni í pokann sem ég tók úr búrinu. Annar fiskurinn hafði það gott frá upphafi en hinn var ekki alveg jafn fjörmikill. Þegar ég kom heim í dag þá sá ég að þessi "hressi" var ekki alveg jafn hress og sá rólegri var kominn með hvíta svampkennda bletti á höfuð og þunna slykju á líkamann. Ég hringdi því í Dýraríkið og fékk þær leiðbeiningar að ég ætti að taka 30% af vatninu úr búrinu og setja 3 mtsk. af salti í það og bæta svo við nýju vatni. Ég gerði það en fyrir um 10 mín. þá var "hressi" fiskurinn dáinn en hinn er jafn rólegur og hann var í gær.
Ég veit ekki hvað er að bregðast hjá mér, tel mig hafa farið eftir öllum leiðbeiningum sem ég hef fundið á netinu: hef ekki gefið of mikinn mat, passa mig á að hafa kveikt á ljósi frá morgni til kvölds, er búinn að loka fyrir sólarljós í herbergið sem búrið er staðsett í, keypti bakgrunn á búrið til að skyggja það enn frekar frá hugsanlegu sólarljósi, hef loftdæluna í gangi öllum stundum, fiskanir áttu að passa vel saman þannig að ég átta mig ekki á hvað er að klikka. Ég skolaði búrið vel áður en ég tók það í notkun, klikkaði reyndar á að skola mölina, setti næringuna sem fylgdi með búrinu í vatnið í réttum hlutföllum en allt kemur fyrir ekki.
Ef einhver getur gefið mér góð ráð þá yrði þau vel þegin. Ég væri alveg til í að vera með 3-4 fiska í þessu búri en ég veit ekki hvort sonur minn höndli fleiri ótímabær dauðsföll
Setti með mynd af búrinu ef það er e-ð obvious klúður hjá mér sem ég hef ekki tekið eftir.
