Jæja. Það er allt komið á blússandi siglingu. Tók eftir rosalegum kipp bara í dag. Nýlega búinn að auka ljóstímann úr 8klst í 9klst, skafa allan þörung af bakglerinu, breyta straumnum í dælunni aftur í það sem ég var með fyrst (frá baki fram á gler).
Gef 5ml (sirka dropi per gallon) af macro/micro blöndunni frá aquariumfertilizer.com á dag.
Drop checkerinn náttúrulega vel grænn. Mistur yfir búrinu þegar kolsýran er í gangi.
Nánast allar plöntur yfirperlaðar með súrefni.
Plantan vinstra megin hjá dæluinnsoginu er að skipta sér eins og andskotinn. Eins vex plantan hægra megin í horninu eins og hún sé á sterum, varð að færa hana frá veggnum við bakið því hún var búin að fylla rýmið þar og eyðileggja felustaðinn fyrir fiskunum.
Meira að segja Nomaphila siamensis sem ég hélt að hefði dáið úr kolsýruleysi er búin að taka við sér og springa út í vexti.
Saururus cernuus hefur hægt all verulega á sér eftir að kjöraðstæður mynduðust. Reyndar las ég mér til um það eftir að ég keypti hana að hún er ekki beinlínis vatnsplanta heldur vex hún meira í jaðrinum upp úr vatni og er ætluð fyrir tjarnir (takk Gæludýr.is), svo kannski er hún bara að drepast þessi elska.
Helsta vandamálið er að Cryptocoryne møllmanii er útsett í green spot algae, sem kemur reyndar líka á glerið, helst þar sem segullinn nær ekki. Møllmani vex líka fjári hægt, svo ég get ekki tekið mikið af blöðunum, þau eru á lífi þrátt fyrir þörunginn. Og bévítans sverðplantan neitar að vaxa. Ég hef reyndar aldrei átt góðu gengi að fagna með sverðplöntur, þó internetið pirri mig ítrekað með því að segja þær vera byrjendaplöntur og vaxa eins og andskotinn allsstaðar.
Næsta sem mig langar að gera er að redda mér 1600-2000L/h skrúfudælu (eins og Hydor Koralia nano) til að dæla frá bakinu þeim megin í búrinu sem spraybarinn er ekki, og klára CO2 uppsetninguna með nýjum needle valve (í pöntun). Einnig langar mér að verða mér úti um peristaltic dælu til að gefa áburð sjálfkrafa eins og t.d. yfir jólin.
