Úr Mbl.
Dvalarheimili aldraðra heimilisdýra
Ikarus Ungur og hress, rúmlega eins árs naggrís, lætur fara vel um sig hjá eiganda sínum.
Í Kópavogi búa í sæmilegu samlyndi tveir aldraðir kettir, naggrís, 40 gotfiskar og 2 gullfiskar ásamt heimafólki. Guðrún Guðlaugsdóttir ræddi við heimasætuna Gunnhildi Ævarsdóttur. Hún er ári eldri en kettirnir og saknar þriggja dáinna naggrísa og nokkurra stökkmúsa.

Tveir aldraðir kettir, einn naggrís, 40 gotfiskar og tveir gullfiskar eiga heimili við Kársnesbrautina í Kópavogi ásamt heimilisfólki. Gunnhildur Ævarsdóttir er ári eldri en kettirnir, sem eru 16 ára gamlir.
"Ég og systur mínar tvær fengum Hagbarð og Hinrik þegar þeir voru kettlingar. En ég man aldrei eftir þeim öðruvísi en fullorðnum," segir Gunnhildur, sem hugsar alfarið um fiskana og svolítið um naggrísinn.
"Naggrísinn Ikarus er ungur og hress, rösklega eins árs. Við áttum áður grísinn Edda, sem var mjög elskaður naggrís, prinsinn á heimilinu, en hann dó af því að tannræturnar uxu upp í augnbotnanna, það var svo sárt að hann hætti að borða. Í þrjár vikur handmötuðum við hann 8 sinnum á sólarhring en það gekk ekki. Hann er jarðaður uppi við sumarbústaðinn okkar ásamt tveimur öðrum naggrísum, Tý og Salómon, sem dóu fyrir skömmu, annar úr lungnabólgu en hinn úr þunglyndi og sorg, hann saknaði svo bróður síns. Það var kannski eins gott hann fékk að fara líka þar sem hann var lamaður á afturfótum og búinn að missa annað augað. Hann hætti að borða þegar bróðir hans dó. Mamma reyndi að lækna þann með lungnabólguna með lyfjum í samráði við dýralækni – en það gekk ekki og heldur ekki að halda lífinu í hinum. Kettirnir eru við furðu góða heilsu núna þótt þeir hafi verið talsvert heilsulausir undanfarin ár. Hinrik er reyndar heyrnarlaus og Hagbarður heyrnardaufur. Hinrik er með sykursýki og þurfti mamma lengi að sprauta hann með insúlíni en honum hefur skánað svo þess þarf ekki lengur, hann er líka með hæggengt krabbamein en finnur ennþá lítið fyrir því. Meðan dýrin okkar þjást ekki fá þau að lifa. Hagbarður er hrakfallabálkur, hann datt sofandi í fyrra úr sófanum niður í steinsteypta gluggakistu og kjálkabrotnaði svo það þurfti að skrúfa saman á honum kjálkann. Bróðir hans varð mjög hræddur við hann nokkra daga vegna skrúfunnar og lyktarinnar af dýralæknastofunni.
Við áttum fyrir ekki löngu stökkmýs sem urðu líka háaldraðar – biðu nokkuð lengi eftir að komast til himna. En fiskarnir eru allir ungir og sprækir. Ég keypti þá í ýmsum dýrabúðum í bænum, nú eru þeir orðnir um 40. Það þarf að passa seiðin, ef fullorðnu fiskarnir ná í þau þá éta þeir þau. Gullfiskana erum við með í pössun. Frænka mína á þá. Annar þeirra er nokkuð gamall en mér fannst honum leiðast svo ég keypti handa honum annan fisk sem félagsskap. Þeir sýnast mjög hressir saman."
– Er ekki erfitt að vera með svona gömul og heilsulaus heimilisdýr?
"Það getur verið svolítið erfitt ef maður hefur grun um að þau eigi ekki langt eftir. Það var mjög sárt þegar naggrísarnir dóu. Verst var þegar Eddi fór því ég átti hann, en auðvitað var líka mjög leiðinlegt þegar bræðurnir dóu. Það varð tómlegt í stofunni, þeir voru fluttir upp á borðstofuborð í stórt búr sem var fullt af heyi. Við höfum fengið hey frá bæ þar sem mamma var í sveit sem barn. Naggrísir þurfa hey bæði til að borða og liggja í og búa sér til hálfgerð hreiður úr. Það þarf að skipta reglulega á heyi svo ekki komi lykt."
Köttum og naggrísum semur illa
– Hvernig líkar köttunum við naggrísi?
"Mjög illa, þeim finnst greinilega vond lykt af þeim og svo taka þeir athyglina frá þeim. Þetta eru innikettir og fá í mesta lagi að fara út á svalir. Þeir eru orðnir dálítið geðvondir, þola illa hávaða og rask á heimilinu og er alls ekki vel við margmenni og heimsóknir. Þeir fara rosalega úr hárum og þess vegna þarf að ryksuga mikið."
– Er 16 ára köttur ekki orðinn talsvert gamall?
"Jú, innikettir verða ekki mikið meira en 15 ára en þó veit ég um 20 ára læðu. Hún býr reyndar í íbúðinni fyrir neðan okkur og fer út en þá bara rétt fyrir utan húsið, hún er með exem og er sjóndöpur."
– Hvað borða svona aldraðir kettir?
"Þeir eru á sérfæði fyrir sykursjúka ketti. Hagbarður er orðinn hálftannlaus en getur samt borðað þetta fæði."
– Hefur ykkur aldrei dottið í hug að fá ykkur hund?
"Jú, pabbi hefur gælt aðeins við þá hugmynd að fá sér veiðihund en ég held að mamma og pabbi vilji ekki standa í meira dýrabrasi fyrr en eftir talsverðan tíma. Nokkuð lengi hefur heimilið okkar verið einskonar "dvalarheimili aldraðra heimilisdýra". Ég vona þó að kettirnir verði 20 ára og naggrísinn getur orðið 6 ára, sem er toppaldur slíkra dýra. Ég er 17 ára og vonandi lifa þessi dýr meðan ég bý heima. Þess ber að geta að kærastinn minn á fiskana með mér og hann á hund heima hjá sér sem er líka mjög gamall."
gudrung@mbl.is