Ég lét verða af þessu núna um páskana. Ég pantaði frostþurrkaða Artemiu hjá Fiskaspjall.is til að gera fiskana pattaralega og fulla af hrognum. Fiskarnir vitlausir í það og fitnuðu hratt (höfðu reyndar áður líka fengið frosna orma). Það virkaði vel.
Hrygningarbúrið setti ég upp með lítilli Fluval dælu sem ég hef átt í mörg ár. Hún er búin að ganga í aðal búrinu í nokkrar vikur svona með ef ég þyrfti á henni að halda í öðru búri tilbúinni með bakteríuflóru. Ég færði hana í hrygningarbúrið, setti í það falskan botn með fínu plastneti og hitara. Ofan á falska botninn fór klípa af javamosa (sem Vargur færði mér).

Hrygningarbúrið með fölskum botn. Hugmyndin er að hrognin detti í gegnum netið áður en fiskarnir ná að éta þau.
Ég valdi par úr gullbarbahópnum að seinnipart 22. apríl og setti í hrygningarbúrið. Þeir stressuðust þessi ósköp upp og misstu nánast allan lit. Ég leyfði þeim að vera í ljósi í búrinu í 1 tíma og myrkvaði svo búrið fyrir nóttina. Morgunin eftir kveikti ég ljósið.

Parið sem ég setti í búrið, hálf litlaust m.v. venjulega.
Þegar ljósið kom á sá ég að annar barbinn hafði einhvernveginn í myrkrinu tekist að troða sér undir falska botninn. Hinn (hrygnan) var en mjög stressuð í felum undir javamosanum. Ég hugsaði með mér að þetta myndi aldrei ganga núna en losaði auðvitað fiskinn og lét þá svo vera. Þeir voru mjög stressaðir og litlausir. 3 tímum síðar fór samt að rofa til hjá þeim og hrygning greinilega í gangi miðað við hve ágengur hængurinn var við hrygnuna og ýtti henni til í javamosanum. Viti menn, þónokkur hrogn mátti sjá undir falska botninum.

Með góðum vilja má sjá hrogn undir netinu (smellið á myndina fyrir stærri útgáfu)
Þegar parið hafði lokið sér af færði ég það aftur í aðalbúrið. Þeir fengu fulla liti á svona 5 mínútum!
Nú 1,5 sólarhring síðar má sjá öðru hverju hreyfingu innan í hrognunum en einnig er eitthvað af ófrjóvguðum hrognum sem eru farin að verða loðin, trúlega v/ svepps. Ég tók loftslöngu og sprautu úr apótekinu og saug þau upp og hennti.
Hreinsidælan gengur enn í búrinu og javamosinn er þar en. Hugmyndin er að dælan nái að halda vatninu góðu og javamosinn nái að drekka í sig lífræn niðurbrotsefni sem gætu eitrað fyrir hrognunum. Trúlega er líka eitthvað af hrongum í honum.
Á morgun eða hinn ætti að draga til tíðinda. Helsta áhyggjuefni mitt núna er fæða fyrir seyðin (ef einhver verða) þegar kviðpokastiginu lýkur. Flestar vefsíður um fjölgun barba og annarra smáfiska virðast sammála um að artemia sé of stór fyrstu dagana fyrir svona seyði og flestir tala um að gefa Infusoria (sem er vatn fullt af stórum einfrumungum, en þetta þarf að brugga/rækta). Soðin eggjarauða virðist vera möguleiki líka og það ætti að vera framkvæmanlegt. Einnig gæti ýmislegt leynst í javamosanum sem þau gætu lifað á.
Ég mun safna myndum af þessu á Picasa vefalbúm á slóðinni http://picasaweb.google.com/hrafnkelle/ ... Barbapabbi.
Ef einhver hefur góð ráð eða ábendingar er það vel þegið.
Að lokum smá bíó.