Pseudotrpheus Kingsizei er oft flokkaður með dvergsikliðum þar sem hann verður sjaldnast stærri en 8-10 cm, því er jafnvel hægt að hafa hann í fremur litlu búri ef aðstæður eru góðar.
Kingsizei er af mörgum talinn einn af fallegri fiskum Malawi vatns, hann er þó nokkuð sjaldséður sem búrfiskur enda hefur hann verið með dýrari Mbuna sikliðum.
Karlinn er bláhvítur á efri hluta búksins og sé hann ánægður með aðstæður er hann nánast sjálflýsandi, hann er með dökkar þverrendur og neðri hluti búksins er dökkgrár en oft kolsvartur ef hann reiðist.
Kerlingin er gulbrún og sjást á henni dökkar þverrendur, hún getur þó verið nánast silfurgrá og ekki ósvipuð karlinum í lit ef hún er að verja sitt svæði, einnig þekkist að kerlingar taki nánast karla liti til að fæla frá óboðna gesti ef þær er með hrogn.
Kingsizei er oft ruglað saman við Cynotilapia afra (white top) og sá síðar nefndi oft seldur sem kingsizei, er vel skiljanlegt að menn ruglist þar sem þessar tegundir eru nánast alveg eins í útliti og hegðun, Cynotilapia afra er þó mun minni og karlinn fær ekki jafnskæran lit og kingsizei, einnig er afra oft með meiri dökkan lit í bakugganum en gott eintak af kingsizei er með nær alveg ljósan bakugga.
Kingsizsei eru sérstaklega skemmtilegir búrfiskar, bæði kynin eru stöðugt á ferðinni og grafa mikið, þurfa því steinar í búrinu að vera nokkuð stöðugir. Kingsizei er fjörugur fiskur og mjög forvitinn. Karlinn á til að ráðast á hluti eins og vatnshreinsi rör og verkfæri þegar verið er að vinna í búrinu og er bráðfyndið að fylgjast með honum við þær athafnir.
Kingsizei hentar vel í blönduð sikliðubúr vegna þess hve skapgóður hann er, hann er yfirleitt ekki fyrri til að byrja slagsmál en stuggar þó viðstöðulaust við búrfélögum til að sýna hver ræður en lætur alveg vera níðast á búrfélugum svo fremi sem pláss sé gott og aðstæður góðar, hann á þó til að vera aðgangsharður á aðrar Pseudotropheus tegundir og þær því óæskilegir búrfélagar. Það gerir kingsizei einnig hentugan fisk í blönduð búr hversu lítinn mökunar áhuga bæði kynin sína öðrum tegundum og því litlar líkur á óæskilegri kynblöndun.
Kingsizei karlinn getur verið mjög aðgangsharður á kerlingar eftir hrygningu og því ætti að hafa nokkrar kerlingar á hvern karl og tryggja að nóg sé af felustöðum.
Ólíkt mörgum öðrum tegundum þá er ráðandi karl nokkuð umburðarlyndur á aðra karla sömu tegundar svo fremi sem þeir viðurkenni völd hans, því geta jafnvel nokkrir karlar verið saman í búri og er jafnvel algengt er að valdaminni karlar sýni fulla liti.
Ungur karl (ca 4cm) að reka burt mun stærri fiska.
Pseudotrpheus kingsizei þarf fóður sem inniheldur mikið grænfóður.
Æskileg búrstærð: +130 l.
Hitastig: 25-28°
pH: 7.8-8.5
Afrískar sikliður - Pseudotrpheus Kingsizei
Moderators: Vargur, Andri Pogo