Meðganga og got
Meðganga og got
Enn og aftur einhver ró yfir gotfiskadálkinum og kominn tími til að bæta þar úr. Hvernig sér maður hvort gotfiskahrygna er að fara að gjóta ? Nokkur atriði er vert að hafa í huga. Hrygnurnar verða bústnari og þegar got er að hefjast verður kviðurinn oft sléttur að neðan og myndar eins og 90° horn við gotraufina. Við sjáum oft dökkan blett aftarlega á kviðnum, sem sést ekki á svörtum gotfiskum eins og Black molly og svörtum sverdrögurum. Hrygnurnar reyna oft að draga sig afsíðis og finna sér næði. Oft lýsir það sér þannig að það er eins og þær reyni að komast út úr búrinu. Hængar elta þessar hrygnur oft meira heldur en aðrar sem getur verið merki um að got er að hefjast. Þegar got er yfirstaðið er hyggilegt að skrá niður dagsetningu ef fólk er spennt fyrir því og taka hrygnuna frá eftir 23 til 24 daga ef vilji er til að ná næsta goti. Meðgöngutími er breytilegur og getur verið frá 3 til 4 vikum og upp í 6 vikur. Hiti skiptir þar máli og svo virðast hrygnurnar geta seinkað goti ef aðstæður eru ekki ákjósanlegar.
dökkur blettur
Sæll og blessaður. Þær eru oft alveg spikfeitar vegna mikillar fóðrunar. Þetta getur villt manni sýn. Þessi blettur þarf heldur ekki alltaf að sjást, þannig að þú þarft að líta eftir hinum táknunum, eins og það þegar þær reyna að draga sig í hlé o.sfrv. eins og ég benti á hér að ofan. Hins vegar er það mín reynsla varðandi gotfiskaræktun almennt að betra er að hafa hrygnurnar einar eða með öðrum hrygnum í búri, enga hænga. Þetta losar þær við allt áreiti og gerir lífið svona meira "jolly" þ.e. þær þurfa ekki endalaust að vera að flýja ástleitna hænga og orkan fer því í þeirra eigin uppbyggingu og vonandi öflugri seyðaframleiðslu. Þær lifa einnig lengur, það er alveg pottþétt. Á nokkurra mánaða fresti er síðan hægt að hleypa til, velja flottasta hænginn til undaneldis. Hann þarf ekkert endilega að vera sá stærsti. Margir aðrir þættir spila þar inn í. Þannig stjórnar maður betur hver faðirinn er og líkur aukast á betri árangri.