Sú nýja er heldur betur spræk og var ekki sein að troða sér yfir í karlahelminginn af búrinu og daðra við kauða. Sá brást auðvitað hinn versti við og rak hana í burtu og byrjaði svo að blása hreiður eins og óður, nýbúinn að hrista af sér sýkinguna sem næstum drap hann. Kerlan virðist finna sér leiðir í gegnum eða framhjá skilrúminu mínu (sem er dálítið skítfix, eins og gengur) og hefur bara sína hentisemi.
Fyrsta hrygningin varð bara nokkrum dögum eftir að kerla kom í búrið og hreiðrið hans var lítið og lélegt og á alveg vonlausum stað (í því horninu á búrinu þar sem eru engar flotplöntur og mestur straumur...) og eftir tveggja daga stanslaust viðhald og streð, gafst hann upp á þessu heimili og allt leystist upp og ekkert varð úr neinu.
Það er núna rétt rúm vika síðan þetta var og núna var ég að sjá að kerlan hefur aftur troðið sér yfir, og er í óða önn að daðra við karlfauskinn, sem hefur gert jafnvel enn lélegra hreiður í þetta skiptið. Það eru komin nokkur egg í það en ég spái þessu svipuðum örlögum og því fyrra.
Ég verð að útvega mér betri skilrúmum, hvað get ég notað? Þessi kynóða bettukerla á eftir að gera útaf við sig og karlangann áður en yfir líkur. Ég býst við að hann þurfi meiri tíma til að gera almennilegt hreiður áður en hann fær að knúsa þessa villtu kerlu sína meira...
Það er alveg þrælgaman að þeim, hún fer bara beint í fangið á honum og hann sýnir sig og svona til málamynda og svo er bara hafist handa við að gera dodo, sem er mjög fallegt, næstum því listrænt, hjá þessari yndislegu tegund af fiskum
