Jæja, eftir endalausar hornsílaveiðar sonarins var farið útí það að kaupa fiskabúr og fiska þar sem ekki tókst að halda lífi í hornsílunum honum til mikillar mæðu.
Keypti 54l búr með tilbehör, þ.e. dælu, hitara, sandur og gervigróður. Setti búrið upp eftir kúnstarinnar reglum (fékk leiðbeiningar í búðinni) og 2 sólarhringum síðar fórum við vísitölufjölskyldan og versluðum fiska.
Fyrir valinu urðu:
2 ryksugur (kann ekki nánari deili á þeim)
10 neon tetrur
2 gubby karlar
1 gullfiskur sem ber nafnið Gulli
Daginn eftir var önnur ryksugan dauð og Gulli mjög fælinn. Lá bara í felum þegar ljósið var kveikt. Þegar það var slökkt og enginn hávaði þá synti hann um og át. Gubby karlarnir voru dasaðir fyrsta daginn en svo voru þeir bara sprækir að mér sýndist en héldu sig mest efst í búrinu. Tetrurnar voru líka sprækar, voru mest neðarlega og færðu sig fram og til baka. Gubbyarnir átu vel sem og tetrurnar.
10 dögum eftir að fiskarnir komu í búrið, og Gulli alltaf jafn skrýtinn þá fórum við í 4 daga ferðalag. Setti svona matarkubb og fiskarnir voru kvaddir innilega.
En það var ófögur sjón sem beið okkar þegar við komum heim seint í gærkvöldi. Allar tetrurnar voru dauðar og hjúpaðar torkennilegum slýhjúp. Frekar mikið ógeðslegt. Gubbyarnir voru dauðir, en ekki svona slýugir eins og tetrurnar. Eina tetruna fann ég ekki. Gulli lá sem dauður væri undir steini, og héldum við að hann væri dauður líka. Ryksugan var sem dauð líka. Vatnið var mjög illa lyktandi, en ekki litað né gruggugt.
Þar sem við héldum að allir væru dauðir þá var ekkert annað að gera en að veiða þá uppúr og farga þeim, og tæma búrið. En það fannst lífsmark með Gulla og ryksugunni og var þeim dembt í skál og búrið tæmt og hreinsað og startað upp á nýtt. Við ítarlega skoðun á Gulla þá tókum við eftir hvítum blettum á sporðinum, herptum uggum - sérstaklega bakugginn, og hann liggur bara og "másar". Ryksugan er dösuð líka, er mjög slöpp en það er erfitt að sjá hvort hún er með doppurnar líka þar sem hún er svona yrjótt.
Allavegana, þá setti ég þá aftur í búrið þó svo það var ekki tilbúið (betra að hafa þá 2 þar en í pínulítilli skál held ég), fór í dýrabúðina og fékk lyf fyrir hvítblettaveiki sem heitir Sera protazol og er fyrir 5 mismunandi veikjum, og svo setti ég 5 matskeiðar af salti útí.
Þetta var kl 16 í dag, og núna kl 23 er Gulli ennþá mjög slappur, fannst hann vera að hressast áðan en svo slappaðist hann aftur. Hann hefur ekki einusinni rænu á að liggja undir stein eins og venjulega til að fela sig frá ljósinu. Ryksuguna hef ég ekki séð, hún er undir steini þar sem ég sé hana ekki. Hitinn á búrinu er 24°C, sama og hefur verið frá upphafi.
Eru einhverjar líkur á að þessir tveir lifi þetta af? Mér sýndist að sumir blettana á Gulla eru að byrja að dökkna, er það jákvætt? Á ég að setja meira salt? Skv leiðbeiningunum með lyfinu á ég að skipta um 80% af vatninu eftir 24 klst, á ég að setja meira salt þá? Hve mikið?
Hvenær má ég bæta fiskum útí? Við ætlum bara að hafa gullfiska, hafa ca 6 stk og ca 3 ryksugur. Er það nokkuð of mikið fyrir þetta búr?
Jæja, þetta er nú meiri langlokan, en þegar maður er svona algjör nýgræðingur þá er þetta allt svo framandi, hvað þá þegar maður lendir í svona uppákomu

Bkv, Anna