Minningargrein um fisk - In Memoriam, Astronotus Ocellatus

Almennar umræður um fiska og tengda hluti sem ekki tilheyra öðrum flokkum

Moderators: Elma, Vargur, Andri Pogo, keli

Post Reply
User avatar
Rodor
Posts: 935
Joined: 29 Dec 2006, 13:39
Location: Reykjavík

Minningargrein um fisk - In Memoriam, Astronotus Ocellatus

Post by Rodor »

Ég veit ekki hvort fisks hefur verið minnst áður á Íslandi, né hvort það er við hæfi, en ég ætla í það minnsta að segja nokkur orð um Guttorm.
Ég keypti Guttorm í fiskabúð í Síðumúlanum snemma árs 2007 og varð hann þá stærsta skepnan í 54 lítra fiskabúrinu mínu. Guttormur, sem ég nefndi þessu nafni töluvert seinna, var snemma mjög sérstakur. Miðað við það sem ég hafði lesið um hans tegund, þá átti hann að vera hið mesta átvagl, en það var öðru nær, hann var frekar latur til matar fyrstu dagana og reyndar oft síðar. Ég minnist þess að fiskur af sogkjaftaætt, sem í daglegu tali eru kallaðir Pleggar, átti það til að stugga við Guttormi þegar hann lá hálf vankaður nýkominn í búrið og vakti það strax furðu mína að sogkjaftar ættu þetta til, en ég las mér þess til seinna að þetta væri eðli eldri sogkjafta.
Image

Guttormur, nefndur eftir frægum bola í Húsdýragarðinum, lá sem sagt eins og slytti fyrstu dagana og leyfði sogkjaftinum að stugga við sér. Mér fannst þetta dálítið skrýtið í fyrstu og þykir jafnvel enn. Að svona stór fiskur og sá stærsti í búrinu léti fara svona með sig. Það átti þó eftir að breytast. Guttormur var að því er virtist hið mesta gæðablóð og var ekkert að agnúast út í búrfélaga sína eftir að hann braggaðist í nýjum heimkynnum, nema það að hann virtist muna eftir því hvernig sogkjafturinn lét við hann. Hann glefsaði því oft til hans og hrakti hann á brott ef hann var að þvælast eitthvað í námunda við hann.
En alltaf þótti mér Guttormur öðruvísi heldur en þeir sem ég hafði spurnir af, af hans líkum, það kom aðallega fram í því að hann var ekkert sérstaklega gírugur í mat. Það mun þó vera einkenni á hans tegund.
Síðla árs 2007 keypti ég annan fisk af sömu tegund og Guttorm og nefni ég hann Orm, ég hafði þó keypt annan í millitíðinni, sem drapst fljótlega. Ormur þessi hegðaði sér nákvæmlega eins og ég ætlaði að þessi tegund gerði, hann var gráðugur með endemum. Guttormur var áfram hógvær í áti og var ég eiginlega komin á þá skoðun að annað hvort væri hann heimskari en aðrir af hans tegund eða það vantaði einhver skynfæri í hann. Hann sýndi oft mikinn áhuga þegar matur var að koma í búrið, en hafði einhvern veginn ekki þann eiginleika í seinni tíð að éta hann.
Það er skemmst frá því að segja, að Ormur, tegundarbróðir Guttorms, braggaðist vel, óx Guttormi yfir höfuð og varð stærstur allra í búrinu. En það er allt aðra sögu að segja af Guttormi. Meðan Ormur stækkaði var engu líkara en Guttormur minnkaði, enda át ræfillinn ekkert síðustu mánuðina og minnkaði hann því mikið, ég held að það eina sem ekki minnkaði á honum, hafi verið kjafturinn. Það er svolítið kaldhæðnislegt, að sá líkamshluti á honum sem tekur inn fæðuna og virðist vera fullfær um að gleypa skuli ekki fá nein skilaboð um að gera svo. Þess vegna minnkaði allt annað á honum nema kjafturinn.
Guttormur er búinn að liggja og hvíla sig undanfarna mánuði á botni búrsins, en hefur þó farið á stjá þegar matur er í boði, en það er eins og hann viti að matur er í boði en hafi ekki hugmynd um hvernig á að innbyrða hann. Því er svona komið með honum.
Þegar ég kom heim í dag, þá lá hann á botninum eins og oft áður, en var kominn meira á hliðina. Hreistur og uggar voru líka farin að hvítna og reikna ég með því að sogkjafturinn sé farinn að leggjast á hann og sjúga úr honum síðasta lífskraftinn.
Ég var nokkuð fljótur að ákveða það, að ég þyrfti að enda líf þessa vesalings, sem gat sig ekki varið þó hann ætti að vera stærstur í sínu búri, sem nú var orðið 210 lítra. Ég læt renna kalt vatn úr krananum og bíð eftir því að það verði nógu kalt. Ég helli vatninu í blómapott og fer með inn að búri. Veiði ræfillinn upp úr og skelli honum í ískalt vatnið, hann spriklar svolítið meðan á þessu stendur og furða ég mig á því hversu mikið líf er með honum. En oní er hann kominn. Ég sé að hann dregur vatn í gegnum tálknin. Skelli honum inní ísskáp og skil hann þar eftir í tvo klukkutíma eða svo. Þegar ég gái að honum aftur er hann allur.
Miðað við búrfiska tel ég að Guttormur hafi átt þokkalegt líf. Það er allsendis óvíst og frekar ólíklegt að honum hefði tekist að ná fullorðinsaldri við náttúrulegar aðstæður.
Þetta er fyrsta og líklega síðasta minningargrein mín um fisk.
Rodor.
Last edited by Rodor on 10 May 2008, 10:56, edited 1 time in total.
User avatar
Rodor
Posts: 935
Joined: 29 Dec 2006, 13:39
Location: Reykjavík

Re: Minningargrein um fisk - In Memoriam, Astronotus Ocellat

Post by Rodor »

:(
User avatar
Agnes Helga
Posts: 1580
Joined: 18 Nov 2006, 14:05

Post by Agnes Helga »

Sorglegt, manni getur þótt virkilega vænt um fiska :cry: þá er mjög leiðinlegt að missa þá, sérstaklega svona sem verða hændir að manni.
450 L amerískar síklíður, 120 L guppy/smáfiska gróðurbúr, 180 L malawii/skjaldböku búr og 85 L seiðabúr
Post Reply